27 maí, 2006

Rennilás


Nóbelsverðlaunin í læknisfræði hljóta sérfræðingar SHA fyrir þá snjöllu lausn, að setja rennilás á sjúklinga til að auðvelda viðhald á innyflum.

Sérstök járn sem rennt er sundur og saman flýta fyrir, þar sem sjúklingurinn þarf ekki að "gróa" sára sinna í hvert sinn sem viðhald hefur farið fram, heldur er eitt skipti nóg, þ.e. þegar rennilásinn er settur.

Helsti galli þessarar lausnar hefur verið að lásinn hefur átt til að gliðna við mikil átök, en það var leyst með svokölluðum innri lás, eða frönskum. Þá er tekinn húðflipi með miklu hári, helst af læri, og hann græddur undir vinstri barm sársins. Hár flipans krækjast svo í fitulag hægri sárabarmsins og gefa gríðarlegan styrk, og auka teygjanleika.

23 maí, 2006

Næstu

daga verður lítið að frétta, hitti lækninn um mánaðarmót, eða í kringum þau. Þangað til verð ég bara í því að gróa.

Hef nettar áhyggjur af því að ofgera mér, vegna yfirgengilegs hressleika. En það er þó skárra en koðna niður í ömurleik. Best væri þó að fara bil beggja...

Kannski maður bara skelli sér í sveitina um helgina, það er aldrei að vita:)

20 maí, 2006

...ég er kominn heim.

Þó ekki hýr og rjóð, eins og segir í ljóðinu, er býsna streit ennþá og blóðleysi hamlar eplakinnum og blómvörum:)

Best að fara aðeins yfir málið. Var skorinn á þriðjudag, það gekk ekki alveg eins vel og þeir doksar vonuðu, en þó vel. Æxlið var í einhverskonar skurn, eða himnu og þeir höfðu vonast til að geta náð því öllu í einu. Þegar til kom, var það ekki hægt, og þeir neyddust til að skilja eftir einhvern hluta þessarar himnu. Þeir tóku sýni sem er í ræktun og skoðun á einhverjum fínum stað í útlöndum, og það kemur vonandi gott út úr því.

Mögulegt er að það þurfi að geisla mig, eða setja á einhver lyf, en það kemur í ljós þegar niðurstöður koma úr sýninu. Ef ég hef skilið það rétt, er það kannski vegna þess að þeim tókst ekki að ná þessari himnu, annars er það bara útaf einhverju öðru.

Fyrir áhugafólk um blóðtölur, var ég lagður inn á mánudaginn með töluna 140. Þriðjudagurinn fór svo í aðgerðina, þar sem ég missti töluvert blóð, og var gefið það sem þeir kalla 4 einingar af blóði. Á miðvikudaginn var ég svo með eitthvað rúmlega 90. Á fimmtudaginn fór ég niðurí 75, en á föstudaginn fór ég í 76. Þar með þótti ljóst að ég væri hættur að lækka, og ákveðið var að gefa mér ekki blóð. Hins vegar skildist mér að í kringum 80 væru þau mörk sem miðað væri við að byrja að gefa.

18 maí, 2006

Myndir

Gunni bróðir kom í heimsókn í gærkvöldi og tók þessar myndir

Hér sést vel lengd skurðarins


Takið eftir hægra megin á myndinni, þ.e. sviðsvinstra fyrir leikhúsfólkið, að þar virðist ég vera heldur vambmikill. Þetta er nú vegna þess að þrátt fyrir dren sem sett var og við sjáum hér neðar, nær ekki að fanga allt sullið sem kemur úr sárinu, þannig að það lekur þarna niður í kviðarholið og á sennilega eftir að mynda stóran og fallegan marblett.


Hér má sjá útbúnaðinn sem maður þarf, fatla til að hafa hendi og dren í og svo gulan galla, þ.e. ef maður er á Akranesi. Ég hef það fyrir satt að þjónustan sé margfalt betri ef maður segist vera ÍA maður frekar en eitthvað annað. Að minnsta kosti kvarta ég ekki.


Hér þótti okkur bræðrum við hæfi að hafa kvarða. Það nærtækasta var legókubbur úr leiksvæðinu í setustofunni(nb. þetta er átta takka stór legókubbur). Þar voru þessar myndir einnig teknar, yfir júróvísjón áhorfi.

Þarna sést líka vel að drenið er leitt úr skurðinum og tekið út undir hendinni, ekki beint úr skurðinum.

Þeir eru sniðuðgir þessir kallar....

Hér er ég....

sumsé, vaknaður eftir aðgerð. Reyndar vaknaði ég heldur fyrr, þ.e. í fyrradag og var heldur ruglaður. Læknirinn var að reyna að segja mér eitthvað, en það var nú bara eins og að henda perlum fyrir svín.

Sem betur fer hringdi hann svo bara í mömmu, og Stefán bró setti inn þær upplýsingar sem hér birtust í kommentunum eftir því. Þannig að nú vitið þið jafn mikið og ég.

En ég á von á því að hitta doksa hér á eftir þar sem nánar verður vélað um framhald þessa máls og mér mögulega sleppt heim, kannski þó ekki fyrr en á morgun eða hinn.

Annars líður mér nú bara alveg bærilega, eiginlega betur en ég hefði að óreyndu trúað, þvælist reyndar með drenpoka, sem liggur úr skurðinum til að taka affallið sem seytlar úr við skurðinn. En það er nú samt ekkert til að hafa áhyggjur af. Einnig segja þeir að ég sé heldur blóðlítill, eigi bara eftir að vinna það upp.

Á von á Gunna bró á eftir, bað hann að taka með sér myndavélina, þannig að vonandi fáið þið að sjá stórkostlegar myndir af sigri læknavísindanna yfir hinu illa...

14 maí, 2006

Það er bæði satt og

rétt, að ég hef sjálfur ákveðið að hafa þetta blogg svona. Það er bara svolítið erfitt að lesa sjálfur þetta raunaraus eftirá.

Var annars að koma af alveg ágætri frumsýningu á Litlu Hryllingsbúðinni í óperunni, og var líka að fylgjast með norðurlandamótinu í lyftingum í Smáralind í dag.



Á milli fór ég svo í stórafmæli Pálma Hrafns frænda míns, sem verður tveggja ára 17. maí

13 maí, 2006

Sjálfhverfa

Er nokkuð sjálfhverfara en manneskja sem bloggar um eigið líf, nema ef vera skyldi tenór að blogga?

Það er sérstakt að renna í gegnum færslurnar og lesa um sjálfan sig eftirá. ÉG með æxli, ÉG í nýja gallanum mínum, nýji skurðurinn MINN, læknirinn MINN hringdi í MIG og svo framvegis...

Ég, ég, ég og aftur ég. Er kannski bara nóg komið?

09 maí, 2006

Staðfestar fréttir

Sjúkrahúsið á Akranesi ætlar að taka á móti mér á mánudaginn 15. maí, kl. 13.00 og skoða mig. Væntanlega verð ég þar yfir nóttina, og skorinn á þriðjudeginum, eftir hádegi.

Þetta mun ganga mjög vel, og ég verð orðinn gríðarlega hress fljótlega.

Að öðru, það er soldið skemmtilegt að spöglera í því sem manni er ráðlagt. Og það í sjálfu sér að fólk, sem er manni misnáið, finni sig knúið til að gefa manni ráð.

Til dæmis hefur mér verið ráðlagt að borða ekki ákveðið kjöt, heldur hinsegin, drekka ákveðinn drykk, og þess háttar ráðleggingar sem snúa að mat. Einnig hefur fólki verið tíðrætt um hegðun, til dæmis að ég eigi nú að hvíla mig vel, fara í sund og svo framvegis.

Einnig hefur, tja, nokkuð oft komið upp þessi setning: "Þú verður að passa þig að loka þig ekki af." Það er nú samt þannig, að það var það sem mér fannst ég eiginlega þurfa hvað mest, sérstaklega fyrst, en hafði ekki tíma til. Það er, mig vantaði tíma til að sitja einn heima og spökulera um þetta ástand, átta mig á því, og kannski einhvern veginn venjast því.

Mig langaði ekkert sérstaklega til að vaða um allt og þurfa að útskýra, nánast á klukkutímafresti, hvað væri að, hvernig það hefði skeð og hvað yrði gert og hvenær. Vitandi ekki sjálfur svarið við neinum af þessum spurningum.

Hins vegar eru þessi ráð öll gefin af góðum hug, og hver veit nema maður nýti sér einhver, eða jafnvel öll:)

04 maí, 2006

Óstaðfestar fregnir

herma að ég fari í skurð þann 16. maí.

Er annars að fara í veikindaleyfi frá vinnunni eftir helgi, hef bara ekki lengur orku í að sinna henni.

Mikið rosalega er leiðinlegt að bíða svona.

01 maí, 2006

Óleiðindaball


Eins og sést mjög glögglega á þessari mynd, var frekar óleiðinlegt á Söngvara-ballinu í Óperunni í gær. Solla sýningarstjóri, ég og Tinna saumó (og orðtakið, að vera eins og hross í afmæli, öðlast skýrari merkingu).

Davíð Ólafs fór á kostum í skipulagningu og veislustjórn þessa viðburðar, sem verður án efa að föstum punkti í tilverunni.


Það er eitthvað svo sætt við þessa mynd, við Elma í sveiflu, en bara spurning hvað Skarpi er að spá þarna á bakvið?

Myndirnar eru teknar af Alberti Bergþórsmanni og stolnar héðan.