Ég er búinn að vera soldið stúrinn síðustu daga, eiginlega bara hræddur. Það hefur verið í mér slen og þreyta og svolítill hósti. Hræðslan kemur sennilega frá því að þetta eru sömu einkenni og voru fyrirboðar aðgerðarinnar í vor.
Blóðið var mælt í mér, og það virðist allt vera í lagi, raunar alveg prýðilegt. Þannig lítur helst út fyrir að áhyggjur mínar séu ekki á rökum reistar. Sennilega er um uppsafnaða spennu og þreytu að ræða. En það er nú svo að mér líður strax betur, að vita þetta!
Það er sérstakt að uppgötva hvað maður er góður að segja sjálfum sér ósatt. Ég hélt satt að segja að allt væri í lagi. Svo er mér bent á að ég sé sífellt geyspandi og þreytulegur, virðist detta niður í hálfgert þunglyndi og sé óvenju mislyndur.
Það kviknaði á peru minni, sem aldrei fyrr! Einfaldlega er ég áhyggjufyllri, hræddari og kvíðnari fyrir komandi meðferð og framhaldinu, en mig nokkurntímann grunaði. Og þá er bara tvennt í stöðunni, að halda áfram eða gefast upp.
Í raun er svo þriðja leiðin, þ.e. að gefast upp og halda áfram. Þá gefst maður upp fyrir aðstæðunum, sættir sig við þær, og heldur áfram út frá þeim. Það er leiðin sem ég ætla að fara...
Svo er nú það sem skekkir jöfnuna, að ekki hef ég lengur bara um mig einan að hugsa, heldur hefur bæst við heil manneskja í mína eins manns fjölskyldu, sem er orðin tveggja manna. Ég er að minnsta kosti ekki í góðri þjálfun í slíkum aðstæðum, vanastur því að vera einn, með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir.
En nýju lífi fylgja ný tækifæri, bara spurning um að koma auga á þau!