09 júlí, 2006

Óheppinn!

Ég var í sundi í fyrradag, og rakst þar á sirka 8 ára gamlan strák.
Hann spurði mig hvers vegna ég væri með þennan skurð á bakinu.
Ég sagði að það hefði þurft að fjarlægja æxli.
Hann sagði: Óheppinn!!! En þú lærðir nú á því, er það ekki?
Jú, ég hélt það nú.

Kannski hélt hann að þetta væri eins og ef maður væri að klifra eitthvað sem hefði verið bannað, svo dottið og slasað sig, og þá væntanlega í framhaldinu lært sína lexíu.

En hef ég lært á þessu?

Kannski helst, að það er ekki eftir neinu að bíða. Vilji maður hamingju- og innihaldsríkt líf, þarf að byrja strax. Ekki á morgun, það gæti verið of seint. Í dag er tækifærið og maður verður að nýta það.

Það er skrýtið að þurfa að fá svona áfall til að átta sig á því...