30 mars, 2006

Sýnin 2

Ég misskildi eitthvað þetta með sýnin og Svíþjóð. Að sjálfsögðu fara þau ekki bara í DHL beint til Svíaríkis. Þetta eru auðvitað gríðarlega dýrmætur og viðkvæmur farmur, sem fer einhverjar sjúkrahússkrókaleiðir.

Það er staðfest að sýnin komu í gær (á miðvikudag) til Sverige, og eru nú í rannsókn þar.

Eigum við ekki bara að krossleggja fingur og svo sem hvað annað sem okkur dettur í hug, og vona að einhverskonar niðurstaða komi fyrir helgi!

Frá Lystvinafélaginu

Í fyrsta sinn á þessari öld komst Vilhjálmur í HIP og átentískar gallabuxur, ópus 32", þ.e. 32 tommur í mittismál.

...og launalaust í þokkabót:)

Hvernig hefurðu það?

Sá sem spyr er ágætis kunningi, sem maður spjallar kannski nokkuð oft við, allavega þegar við hittumst á förnum vegi. Kunninginn hefur greinilega ekki heyrt að ég sé með krabbamein.

Hingað til hef ég alltaf sagt, að allt sé fínt, og gangi bara vel (og yfirleitt hefur það verið sannleikanum samkvæmt). Hins vegar finnst mér ég vera búinn með þann kvóta í bili, get ekki aðspurður sagt að allt sé fínt og gangi vel. Samt finnst mér ekki þægilegt að segja: Frekar skítt, er með æxli. Það eyðileggur alveg stemminguna.

Það sem mér finnst verst, er að það virðist oft fá meira á viðmælandann, heldur en mig, ég hef nú reyndar haft lengri tíma til að átta mig á þessu en þegar upp er staðið er það ég sem þarf að díla við ástandið.

Þannig að fyrirgefið ef ég segist aðspurður hafa það frekar skítt, það er ekki illa meint, en ég nenni ekki að fara eins og köttur í kringum heitan graut í þessu sambandi.

Og það er enn ekkert að frétta

28 mars, 2006

Læknirinn, skatturinn og Guð

Ég hef ekkert heyrt í lækninum í dag, vonandi þá bara á morgun.

Jæja, best að gera skattskýrsluna. Fyrirgefðu mér Guð, ef ég segi ekki alveg satt og rétt frá...:)

27 mars, 2006

Sýnin

sem tekin voru á fimmtudaginn, gáfu íslendingunum ekki nógu glöggar niðurstöður. Þau voru send til Svíþjóðar á föstudaginn. Þar mun prófessorinn sem leit á myndirnar af mér, skoða þau.

Mögulega koma niðurstöður seinnipartinn, sennilega þó ekki fyrr en á morgun.

26 mars, 2006

Jákvæða bloggið

Best að rifja upp jákvæðu púnktana, ekki veitir af: Meinið er staðbundið, líklega hægt að skera beint upp, er vinstra megin og ég er rétthentur, er ekki með slitinn vöðva (sjúkk;), er ágætlega tryggður, á góða að, og sennilega margt fleira...

Finnst betra að segja frá því, að einhvern veginn kann ég ekki við að kommenta sjálfur, hér á síðunni (allavega í bili, það gæti breyst:). Hins vegar fylgist ég að sjálfsögðu með og þakka hlýjar kveðjur. Það er gott að vita af ykkur þarna úti. Það eru líka ýmsir sem ekki kommenta, en fylgjast með, og hafa látið vita af sínum stuðningi, hafið einnig þökk.

Vonandi koma fréttir á morgun.

24 mars, 2006

Ég heiti Villi og ég er....

Vegna þess að mér hefur verið hrósað töluvert fyrir ritsnilld, sem er að minnsta kosti ekki meðvituð, verð ég að koma út úr skápnum og játa.... ég er bariton eða jafnvel bassi, væri ég tenór eins og flestir virðast halda, væri þessi síða full af rusli og innantómum þvættingi.

Semsagt, eins og Nonni söngkennari segir: "Vilhjálmur, þú er svo gáfaður, að þú hlýtur að vera uppsunginn bariton".

Verst bara að ég kemst ekkert niður...

Annars er ekkert nýtt að frétta.

23 mars, 2006

This is normal

Hann er nú ekkert ómyndarlegur hægra megin séð, drengurinn

Hérna sjáum við hins vegar vinstramegin, og það er ekki jafn fallegt. Þarna gefur að líta fjólubláa línu og plástur. Þar voru tekin sýni í dag, sýnatakarinn þurfti að merkja þau til að vita hvort sýnið er hvað.


Hérna sést stærðin kanski betur (eða að minnsta kosti frá öðru sjónarhorni), í daglegu lífi stendur þessi hnúður eiginlega frekar aftur, og gerir óþægilegt að sitja í stólum (allavega með baki), liggja á bakinu, reka öxlina utaní, og svo framvegis.

Að gefnu tilefni

Svona svo því sé haldið til haga, þá líður mér ekkert sérstaklega illa, líkamlega. Allavega ekki verr, eða svosem betur heldur en í gær eða fyrir viku eða mánuði. Reyndar finnst mér ég finna meir og meir fyrir æxlinu, eins og það sé að stækka, en það virðist ekki valda meiri óþægindum.

Ég er aumur í kringum herðablaðið, eins og með vöðvabólgu, eða harðsperrur, og það er auðvitað ekkert sérlega gott, en alls ekki mjög vont.

Þetta var líkamlega heilsan, andlega heilsan er annað mál, hefur verið býsna sveiflukennd, og misjöfn. Að meðaltali þó ekki mjög slæm.

22 mars, 2006

Góðar og slæmar

Maður heldur að það sé betra að fá fréttirnar, heldur en ekki, en ég er ekki svo viss lengur.

Talaði við lækninn í morgun, hann sagðist hafa borið myndir og rannsóknir undir svíana, og þeir komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri mjög óvenjulegt (þá staðsetning og stærð). Annað hvort væri þetta svokallað chondrosarcoma eða osteosarcoma. Hvorutveggja eru illkynja æxli, chondro er frá brjóski, en osteo frá beini. Ef um chondrosarcoma er að ræða, er sennilega hægt að skera það beint í burtu, en sé þetta osteosarcoma, þá þarf að öllum líkindum lyfja- eða geislameðferð áður en skorið er.

Góðu fréttirnar eru þó þær, að eftir yfirgripsmikilar rannsóknir, hafa ekki fundist nein meinvörp, þannig að þetta virðist staðbundið og að svíunum finnst líklegra að þetta sé chondro, sem er betra.

Á morgun á ég svo von á því að vera sendur í vefjasýni, og niðurstöður úr því, sem skera úr um tegund æxlis, koma líklega ekki fyrr en eftir helgi. Þannig að það er meiri bið, gaman...

21 mars, 2006

Tíðindalaust af

axlarvígstöðvunum.

Það er skrýtið, mér er eiginlega sama hvað er að, bara að ég fái að vita það.

En auðvitað er mér ekki sama, en í augnablikinu skiptir það mig meiru máli að fá fréttir, heldur en að fá góðar fréttir. Hvað er að, hvað verður gert, og hvenær, hvað verð ég lengi að jafna mig, mun ég nokkurn tíman jafna mig, eru spurningar sem eru býsna áleitnar.

Eitt er þó víst, lífið hefur breyst.

20 mars, 2006

Afmæli

Af helstu stórmennum sögunnar sem fæðst hafa þennan dag, 20. mars, er mamma sennilega minnst fræg.

Til hamingju með daginn mamma

19 mars, 2006

með höfuð fullt af.......

Það eru skrýtnar hugsanir sem fljúga gegnum huga manns, svona fyrstu dagana eftir fréttir. Ég stóð mig að því að fagna því að ég skildi hafa látið nánast þröngva upp á mig líftryggingu fyrir nokkrum árum. Ég verð náttúrulega jafn lifandi eða dauður burtséð frá tryggingunni, lifandi fæ ég ekki neitt, dauður nýt ég einskis, eða hvað?

Ég fór líka að hugsa um það hvort ég væri búinn að gera allt sem ég ætlaði mér. Hugurinn fór af stað og sagði mér hvers ég hefði farið á mis, og rifjaði upp fyrir mér allt sem ég hafði ekki gert. Ég gleymdi því sem ég þó hef gert, og auðvitað er það sem telur.

Til dæmis hef ég alltaf staðið mig vel í skóla, þ.e. ef ég hef nennt að sinna því, hef æft ýmsar íþróttir, og sumar þeirra meir að segja til þónokkurs árangurs (reyndar ekki alveg áfallalaust:), hef lært og unnið við járnsmíði (ok, vantar 4 einingar og sveinspróf), hef farið á sjó, ferðast nokkuð víða, hef unnið í bakaríi (munaði litlu að ég lærði það), tekið stúdentspróf, sungið fyrir Noregskonung (hann dottaði nú reyndar meistaralega ef ég man rétt), hætt að drekka, og sennilega er afrekalistinn endalaus, en mér dettur samt ekkert fleira í hug í bili.

Síðustu 4 ár hef ég látið hjartað ráða, þó það hafi auðvitað kostað ýmsar fórnir, t.d. nætursvefn (og reyndar svefn yfir höfuð á tímabili), mikla launalækkun (amk til að byrja með), bílleysi, mjög óreglulegan vinnutíma, og ýmislegt fleira.

Að leyfa hjartanu að ráða, er ekki endilega rökréttasta ákvörðunin sem maður tekur eða sú auðveldasta. Raunar held ég að það þurfi töluvert mikinn kjark, og í sumum tilvikum jafnvel fífldirfsku til að fara í þá átt.

Fífldirfska er orðið yfir að leggja út í söngnám af jafn mikilli alvöru og ég gerði, miðað við að röddin var nánast ekki. Ég roðna enn og fæ aulahroll þegar ég rifja upp inntökuprófið í Nýja Tónlistarskólann fyrir 5 árum síðan. En ég gerði það og hef þó komist það langt að hafa töluverðar tekjur af söng. Það gera ekki allir, þrátt fyrir langt nám.

Þetta gat ég.

18 mars, 2006

Skrýtið,

mig langar ekki til að syngja.

Blogg um bloggið

Nær allir bloggarar sem ég les, skrifa reglulega um það að blogga, og nú er mitt fyrsta á leiðinni.

Þessi síða er hugsuð sem fréttamiðstöð vina og kunningja. Eins og ég hef fundið pínulítið fyrir, á ég greinilega marga vini og kunningja sem vilja gjarnan styðja mig og styrkja í þessari stöðu sem upp er komin. Eiginlega töluvert fleiri en ég hélt...

Það er gott að finna stuðninginn, en stundum verð ég oggulítið þreyttur á að svara sömu spurningunum aftur og aftur, sérstaklega ef ég veit ekki svarið sjálfur. Svo stendur nú líka misvel á, tilfinningalega séð, þannig að saklaust samtal getur orðið hrein þrekraun og snúist í skrýtinn hring.

Þess vegna ætla ég að biðja ykkur, kæru vinir, að fylgjast með hér og á móti lofa ég að setja allar mögulegar upplýsingar um "brenniboltann" á bakinu, um leið og þær berast. Í bili er ekkert nýtt að frétta.

17 mars, 2006

Ekkifréttir

Síðan ég skrifaði bréfið sem ég birti hér á undan, hef ég nánast verið í fullri vinnu við að mæta í rannsóknir. Olnbogabæturnar eru eins og á hardkor dópista, allar útstungnar eftir blóðtökur, litarefni og geislavirk efni.

Ég er búinn að fara í: tölvusneiðmynd og röntgen, segulómun og röntgen, blóðprufu, beinaskann og röntgen, og svo að lokum tölvusneiðmynd aftur.

Niðurstöðum úr þessum prófunum er læknirinn minn að safna saman, og fer með til Svíþjóðar (held ég) á laugardaginn til að sýna Norðurlandameistaranum í axlaræxlum, og ráðgast við hann.

Það er alveg ljóst að ég fæ ekki að vita meira, fyrr en í fyrsta lagi eftir helgi, jafnvel ekki fyrr en undir næstu helgi. Hins vegar mun ég birta góðar fréttir hér um leið og þær berast:).

Nýtt líf!

Já, maður vaknar upp einn daginn og þarf að hefja nýtt líf.

Hvar byrjar maður?

Ég ákvað að fara í frí í skólanum, slá öllum kórum á frest, hætta að syngja í jarðarförum, minnka vinnuna í óperunni eins og mögulegt er og ná í sjónvarpið heim til mömmu og pabba.

Hvað veldur því að maður þarf að byrja nýtt líf?

Tja, í mínu tilfelli var það áfallið við að heyra í lækninum mínum á 32 ára afmælisdaginn, mánudaginn 13. mars. Hér fyrir neðan set ég inn bréf, sem ég skrifaði félögum mínum í kammerkór Langholtskirkju og kór Bústaðakirkju, og lýsir þessum ferli nokkuð vel, allavega eins og ég upplifði aðdragandann:

Kæru vinir, það kom svolítið uppá, sem ég ætla að deila með ykkur, svona í grófum dráttum.

Í ágúst fékk ég lungnabólgu, og var lengi að ná henni úr mér, má jafnvel segja að ég sé rétt að verða laus við hana núna. Ég hóstaði og hóstaði, og sennilega einhvern tímann í október eða nóvember fór ég að finna fyrir einskonar strengjum (eiginlega eins og harðsperrur eða væg tognun) undir eða við vinstra herðablaðið og ég tengdi það bara við það að ég var byrjaður að skúra á fullu í óperunni, hélt ég væri bara að hreyfa vöðva sem hefðu þangað til þá lítið verið notaðir.

Í desember hélt ég mig orðinn góðan af þessari lungnabólgu, en í byrjun janúar sló mér niður aftur með lungnabólgu, sem ég reyndar náði nokkuð fljótt úr mér, en á sama tímapunkti tek ég eftir því að vinstra herðablaðið er farið að standa einkennilega út. Ég hugsaði með mér að þetta væri nú skrýtið, en ég hefði sennilega núna bara slitið vöðva, sem ætti að halda herðablaðinu á sínum stað.

Svo var það í lok febrúar sem ég fer að hafa áhyggjur af þessu herðablaðsdæmi, vegna þess að þetta lagaðist ekkert og eiginlega versnaði, panta mér tíma hjá bæklunarlækni, því ég hélt ég væri með slitinn vöðva. Til hans fór ég á síðasta fimmtudag, 9.mars, hann þreifaði á mér öllum og sagði að sér þætti ekki ólíklegt að þetta væri svokallað fituæxli. Þau eru víst nokkuð algeng, og hættulítil, en til að staðfesta það sendi hann mig í myndatöku á föstudagsmorgun. Þar var tekin tölvusneiðmynd og röntgen.

Á mánudaginn hringdi hann í mig og gat því miður ekki staðfest að um fituæxli væri að ræða, heldur virðist vera mögulega eitthvað annað og verra að. Hann sendi mig í segulómun, sem ég fór í gær, fer í blóðprufu í dag og eitthvað sem kallast beinaskönnun á fimmtudag.

Einnig nefndi doktorinn, að vegna stærðar æxlisins (eða hvað svo sem þetta nú er), sé nokkuð ljóst að það þurfi að fjarlægja það. Hann sagði að mögulega þyrfti hann að senda mig út til Svíþjóðar til þess, þar sem hann vissi ekki um neinn lækni hér á landi sem gæti gert þetta.

Þetta er allt sem ég veit, allavega í bili, og ég vona að þið sýnið mér skilning vegna þessa. Ég ákvað að senda þetta út svona, til að hafa staðreyndir á hreinu, og einnig til þess að þurfa kannski ekki að skýra þetta út fyrir hverjum og einum, ég veit bara ekki hvort ég hef geðheilsu í það. Hins vegar ætlast ég ekki til að fólk þurfi eitthvað að pískra um þetta milli sín, það er alveg óhætt að spyrja fréttaJ

Kær kveðja,

Þannig var það nú......