09 september, 2006

Búið

Þá eru 25 skipti í geislum búin, kláruðust á fimmtudaginn. Þetta var fljótt að líða, hjúkkurnar á K-deildinni voru ósköp ljúfar og góðar, og þetta rann vel.

Geislameðferð er einhvern veginn allt öðruvísi en ég hélt. Hún er svona eins og að drekka 2 lítra af gosi í einu. Ekkert mál til að byrja með, um miðja flösku fer maður að hiksta, og undir lokin alveg pakksaddur, en þó alltaf pláss fyrir einn sopa enn. Samt langar mann ekkert í meira... og gumsið gæti alveg komið allt upp aftur:)

Það var eiginlega fyrst í síðustu vikunni sem ég fór virkilega að finna fyrir aukaverkunum. Þreyttur, en samt ekki syfjaður, brunninn, og hálf ómögulegur einhvernveginn.

Mér finnst ég finna meira og meira fyrir brunanum, en það er víst eðlilegt.

Eftir 6 vikur fer ég í myndatökur og eitthvað fleira, hitti síðan lækninn nokkrum dögum seinna, og verð þá vonandi útskrifaður.

Annars er allt gott að frétta, byrjaður í skólanum og lýst mjög vel á mig þar, Agnes er sæmileg og líka byrjuð í skóla, ég er á bíl þessa dagana, þannig að ekki er hægt að kvarta:)