28 júní, 2006

Nú verða sagðar fréttir.

Hitti krabbameinslækninn í dag. Hann sagði að við rannsókn æxlisins hefði komið í ljós vöxtur í jaðri þess. Það þýðir að sennilega er áframhaldandi vöxtur í herðablaðinu.

Þá væri tvennt til ráða, annarsvegar að skera aftur og taka meira, sem væri ekki góður kostur vegna þess að það myndi skerða hreyfigetu handleggsins töluvert. Hins vegar væri hægt að geisla svæðið og reyna að drepa vöxtinn þannig.

Og það var ákveðið.

Í byrjun ágúst fer ég í geislameðferð, sem mun standa yfir í u.þ.b. 6 vikur. Fyrst mæti ég í einhverskonar undirbúning, myndatökur og rannsóknir, og svo verður geislað einu sinni á dag í fimm vikur.

Mögulegar aukaverkanir eru roði í húð og þreyta. En ekki er víst að ég finni fyrir nokkrum slíkum.

Annars er ég orðinn hundleiður á þessu og ætla að reyna að njóta sumarsins eins og hægt er, þegar þannig viðrar.

20 júní, 2006

Það kom að því

að eitthvað nýtt fréttist.

Læknirinn hringdi í mig í gær og sagði mér að kanarnir hefðu komist að sömu niðurstöðu og þeir hérna heima.

Semsé að æxlið hafi verið risafrumutúmor, illskeytt, hrattvaxandi, góðkynja sem vex í bein og æðar.

Hann sagði mér að einhvern næstu daga myndi krabbameinslæknir hringja í mig, og að öllum líkindum myndi hann vilja geisla öxlina.

Mér skilst að einna helstu aukaverkanir sem fylgja geislun, sé sólbruni og þá gjarnan innanfrá.

Það er þá sennilega best að fara að drekka sólvörnina sem fyrst, allavega virðist alveg marklaust að bera hana á sig útvortis, eins og sumarið hefur verið þetta haustið.

11 júní, 2006

Jæja, jæja

enn er ekkert nýtt að frétta, kannski verður bara ekkert meira að frétta?

En ég er hress og bið fólk að njóta sumarsins...

02 júní, 2006

Skrýtið,

að vera heima í veikindaleyfi, og vera ekki nógu slappur og aumur til að "njóta" þess.

Í staðinn situr maður uppi með bullandi sektarkennd yfir því að mæta ekki í vinnuna???

Samt er ég örugglega óvinnufær, heftin tekin úr fyrir 2 dögum, en ég er mjög hreyfanlegur og það veldur ruglingi í mér (og kannski öðrum).