06 febrúar, 2007

Innihald og nýjar fréttir

Jæja, mikið hefur verið kvartað og kveinað yfir bloggleysi. Það er nú hinsvegar svo að mér finnst ekki sniðugt að blaðra um ekki neitt. Ég hefði með góðu móti getað velt mér upp úr gömlum fréttum, en nenni því ekki. Sem sagt: Hér skal vera innihald!

Óléttan gengur vel, við erum búin að fara á foreldranámskeið sem var ótrúlega óspennandi, og satt best að segja leiðinlegt að mestum parti. Þó var gaman eitt kvöldið þegar sr. Bragi Skúlason sjúkrahúsprestur kom. Algjör snillingur þar á ferð. Svo var nú reyndar ágætt að fara og sjá fæðingardeildina.

Var hjá lækninum mínum í morgun, var áður búinn að fara í svokallað CT eða tölvuskann. Hann lét mig hafa blað með niðurstöðunum, og lýsi ég hér með eftir fólki sem skilur þetta:

"Þetta svæði með mjúkvefjatumor afmarkast ekki með vissu við rannsókn nú og hefur orðið beinmyndun á svæðinu. Þannig merki um regress á tumor í scapula. Það sést atelectasastrik í lobus medius eins og áður. Ekki tilkomnar íferðir í lungum. Ekki eitlastækkanir í mediastinum."

Svo mörg voru þau orð...........................reyndar ekki, doksi sagði að þetta þýddi að allt liti vel út, engin meinvörp og ekki neitt. Reyndar væri kölkun í herðablaðinu sem skorið var, en það væri eðlilegt. Ég sagði honum að ég væri oft svo þreyttur, hann ætlaði að kanna það betur, líklega væru þetta bara enn eftirköst aðgerðar og geisla.

Annars er hreiðurgerð í fullum gangi hér í Klukkuberginu, búið að skipta út fataskáp í svefnherbergi, og eftir tvær vikur verða stórframkvæmdir í eldhúsinu. Þá verður allt rifið út, sparslað og málað, parketið rifið af, sett upp ný eldhúsinnrétting, ný tæki, flísar á gólfið, og allt:)