29 apríl, 2006

Og að gefnu tilefni,

netfangið mitt er falið hér á síðunni, hægra megin við myndina, undir Wiew my complete profile. Ef maður klikkar á það, kemur upp hnappur vinstra megin á skjánum, þar sem stendur Email. Vinstriklikki maður á hann ætti að koma upp bréfsefni með netfanginu mínu. Annars er netfangið villithorsig@hotmail.com

Líka, eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir er myndin sem birtist við hliðina á nafninu mínu, ekki af mér. Þetta er mynd af Fritz Wunderlich, hinum undursamlega tenór (reyndar þýðir Wunderlich undarlegur), sem dó því miður af slysförum árið 1966, einungis 36 ára gamall. Hann hefur verið uppáhaldstenórinn minn síðan ég fór að halda upp á slíka. Ef lesendur hafa ekki enn heyrt Die Schöne Mullerin og Dichterliebe með Wunderlich, eru þeir hér með hvattir til að láta það ekki bíða lengur, því þar ríkir fegurðin ein.

Erum við ekki annars bara soldið líkir????

Svona

rétt til að öppdeita, doktorinn hafði samband og sagði að nú stæði aðallega á því að þeir skurðfélagar finndu tíma sem þeir væru báðir lausir. En ekki bara það heldur þarf skurðstofan líka að vera laus. Ég er alltaf laus, en það er nú eiginlega aukaatriði:)

Sumsé meiriháttar púsluspil.

Í sambandi við myndir, þá er ég að fara á söngvaraball í óperunni á morgun, þannig að ég verð mjög líklega á forsíðu Séð og Heyrt í næstu viku. Annars hef ég fullan hug á að láta mynda mig í kjólfötunum hans afa og mun án efa birta eina eða tvær slíkar hér.

Vegna fjölda (eða minnsta kosti nokkurra) áskorana um birtingu fleiri nektarmynda, þá hef ég ákveðið að bjóða frekar uppá heimsendingu. Þ.e. ef gríðarlegur áhugi er fyrir hendi, þá mæti ég bara á staðinn (ath, tilboð sem gildir einungis fyrir ungar og einhleypar stúlkur:)

26 apríl, 2006

Niðurstaðan

er orðin endanleg, þ.e. Ameríkanarnir komust að sömu niðurstöðu og Íslendingarnir. Sem er gott.

Nú bíð ég bara eftir því að læknarnir fái tíma á Skaganum, það verður um eða uppúr miðjum maí, en eins og læknirinn sagði svosem sjálfur, hefur þetta tilhneygingu til að teygjast í hinn endann.

En allavega er þetta komið á hreint

22 apríl, 2006

Sýnaskurðurinn


leit svona út sennilega 15. apríl, uþb. viku eftir aðgerð. Gunni bró taldi 11 spor.Og Zoolander hittir hér fyrir KillBill(brúðgumann?)

Held að þetta sé BLUE STEELE svipurinn, ætlaði að taka MAGNUM, en hann var bara ekki tilbúinn.

Og að gefnu tilefni, gallinn hefur ekkert með ÍA að gera. Bara svo það sé á hreinu...

21 apríl, 2006

Sumarið


er víst komið, ég get svarið að það snjóaði í dag.

Það er annars langt síðan síðast, en það er nú bara vegna þess að ekkert er að frétta. Ætlaði annars að setja inn myndir af sýnatökuskurðinum og KillBillHenson gallanum mínum nýja fína, sem unglingadeildin niðrí óperu ákvað að gefa mér, en þær eru hjá Gunna bró.

En sumsé hann lítur uþb. svona út, þ.e. gallinn og er alveg meiriháttar.
Mig nefnilega vantaði svona sjúklingaföt, til vera í á spítalanum.

Takk fyrir það krakkar, og gleðilegt sumar.

11 apríl, 2006

Loksins...., næstum því

Doktorinn hringdi semsagt í dag og sagði mér að 99.99% líkur væru á því að þetta væri risafrumuæxli. Hinsvegar þyrfti að útiloka þetta 0.01% og það yrði gert með því að senda sýnið til Bandaríkjanna. Niðurstöður úr því koma fljótlega eftir páska.

Hann sagði líka að eftir að hafa rætt við kollegana í Svíþjóð og á Íslandi, væri hann helst kominn að þeirri niðurstöðu að gera þessa aðgerð hér heima. Aðgerðina myndi hann þá gera sjálfur ásamt kollega sínum, líklega uppá Akranesi.

Aðspurður hvenær það yrði svona sirka, þá giskaði hann á byrjun maí, eða í fyrstu, annari eða þriðju viku maí, svona til að þrengja þetta aðeins.

10 apríl, 2006

Styttist í ....

Var að heyra í lækninum, hann sagði að niðurstöðu væri að vænta á morgun, seinnipartinn, myndi hringja í mig þá.

Skurðurinn var að hans sögn rúmlega 5cm og býsna djúpur, þurfti að brenna fyrir litlar æðar.

Sýnið var svo gott að nóg er að skoða það hér heima, þannig að hér verða vonandi góðar fréttir á morgun.

08 apríl, 2006

Æsingur

Í mat hjá ömmu og afa áðan, æsti ég mig yfir smámáli. Greinilega er jafnvægið ekki meira en það.

07 apríl, 2006

Ógleði

Var kominn heim, býsna hress, eftir mat með mömmu.

Þá varð mér óglatt, án þess þó að þurfa að kasta upp, bara býsna skrýtin og óþægileg upplifun. Tók þá einnig eftir að blætt hafði í gegn um umbúðirnar. Hringdi þá á skurðstofuna, var sagt að mæta.

Hitti lækninn, hann skipti um á skurðinum og sagði mér að harka af mér ógleðina, drekka bara vatn og bíða. Sagði líka að þetta væri ekki mikil blæðing:)

Núna er ég búinn að drekka mikið vatn, leggja mig og er stálsleginn, nema nú fatta ég að parkódín virkar, þ.e. er hætt að virka í þessu tilfelli.

Jæja, vaknaður!

Þetta var nú ekki svo slæmt, samt soldill skurður, að mér skilst, sennilega nálægt 10cm.

Er merkilega lítið aumur í þessu, kannski vegna parkódíns forte...

06 apríl, 2006

Svæfður....hmmmmmmmmm

Vonandi þó ekki eins og kötturinn minn sálugi...:)

Sýnatakan

verður víst ekki alveg eins einföld og útlit var fyrir. Ég verð svæfður, og missi úr vinnu í fyrsta skipti vegna þessa vesens.

En annars er allt gott að frétta...

04 apríl, 2006

Góðar fréttir

Jæja, loksins góðar fréttir, var að koma frá lækninum, með mömmu.

Læknirinn sagði að æxlið væri sennilega hvorki osteo- né chondrosarcoma, heldur líklega risafrumuæxli. Sem er mun betra.

Batalíkur eru bestar af því, einungis þarf skurðaðgerð til að fjarlægja það.

Hins vegar er þetta nú ekki alveg klárt, þannig að á föstudaginn fer ég í sýnatöku. Hún fer fram á skurðstofu, ég verð staðdeyfður og svo krukkað í æxlið. Niðurstöður koma svo vonandi fyrir páska.

03 apríl, 2006

Engar fréttir=góðar fréttir?

Þetta er góður frasi, en kannski á hann ekki við í öllum tilfellum.

Í bili finnst mér eiginlega engar fréttir vera verstu fréttirnar... eða að minnsta kosti engar fréttir=engar fréttir.

Sjónvarpið

Ég komst að því ákveðinn misskilningur er í gangi. Ég skrifaði um það hér fyrir nokkru þegar ég sótti sjónvarpið mitt heim til mömmu og pabba. Einhverjir virðast hafa dregið þá ályktun að ég hafi legið yfir því síðan.

Það er alrangt. Ég er eiginlega alltaf að komast að því betur og betur hversu ónauðsynlegt það er. Hafandi 30 stöðvar eða svo, finn ég ekkert til að horfa á nema fótbolta (og reyndar pílukast á fimmtudagskvöldum á skysports1). En það er líka gott að fatta það, ég get núna alveg haft sjónvarp, án þess að týna mér í því.

Það var nefnilega ástæða fyrir því að ég fór með sjónvarpið á sínum tíma í geymslu. Ég vaknaði upp einn daginn, og áttaði mig á því að ég hafði ekki tíma til að gera neitt, nema horfa á sjónvarpið. Ég kom heim úr vinnunni, lagðist í sófann fyrir framan imbann og lá þar þangað til ég fór að sofa.

Lausnin var sem sagt, að losa sig við skriflið, og voilá, það virkaði:)

Enn er ekkert að frétta af æxlinu, fer og hitti lækninn á morgun, mögulega verða fréttir eftir það.

01 apríl, 2006

Status Quo

Hljómsveitin Status Quo hélt tónleika í Reiðhöllinni í Víðidal, sennilega 1987. Tónleikarnir voru klukkan 3 að degi til.
Það var sumar og ég var á skátamóti einhversstaðar upp við Vífilsstaði sömu helgi.
Mig langaði óskaplega á þessa tónleika, hver vill ekki sjá hljómsveitina sem samdi lögin Rockin´ all over the world og In the army now?
Því miður, eða sem betur fer, var stranglega bannað að yfirgefa skátamótið, eða allavega var mér bannað það.
En tónleikarnir floppuðu frekar illa, ef mig brestur ekki minni.
Þannig að betur var heima setið.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér því að nú sit ég og velti mér upp úr ástandi, sem hefur verið óbreytt ansi lengi.
Það er vissulega ekki þægilegt að svífa í lausu lofti, ég held bara að ég hafi ekki komist í hann krappari.

Fékk skilaboð frá lækninum áðan, hann er í stöðugu sambandi við Svíþjóð, þeir eru ekki búnir að átta sig á þessu ennþá, láta vita um leið og þeir vita meira.