09 ágúst, 2006

Peran

Ég er búinn að vera soldið stúrinn síðustu daga, eiginlega bara hræddur. Það hefur verið í mér slen og þreyta og svolítill hósti. Hræðslan kemur sennilega frá því að þetta eru sömu einkenni og voru fyrirboðar aðgerðarinnar í vor.

Blóðið var mælt í mér, og það virðist allt vera í lagi, raunar alveg prýðilegt. Þannig lítur helst út fyrir að áhyggjur mínar séu ekki á rökum reistar. Sennilega er um uppsafnaða spennu og þreytu að ræða. En það er nú svo að mér líður strax betur, að vita þetta!

Það er sérstakt að uppgötva hvað maður er góður að segja sjálfum sér ósatt. Ég hélt satt að segja að allt væri í lagi. Svo er mér bent á að ég sé sífellt geyspandi og þreytulegur, virðist detta niður í hálfgert þunglyndi og sé óvenju mislyndur.

Það kviknaði á peru minni, sem aldrei fyrr! Einfaldlega er ég áhyggjufyllri, hræddari og kvíðnari fyrir komandi meðferð og framhaldinu, en mig nokkurntímann grunaði. Og þá er bara tvennt í stöðunni, að halda áfram eða gefast upp.

Í raun er svo þriðja leiðin, þ.e. að gefast upp og halda áfram. Þá gefst maður upp fyrir aðstæðunum, sættir sig við þær, og heldur áfram út frá þeim. Það er leiðin sem ég ætla að fara...

Svo er nú það sem skekkir jöfnuna, að ekki hef ég lengur bara um mig einan að hugsa, heldur hefur bæst við heil manneskja í mína eins manns fjölskyldu, sem er orðin tveggja manna. Ég er að minnsta kosti ekki í góðri þjálfun í slíkum aðstæðum, vanastur því að vera einn, með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir.

En nýju lífi fylgja ný tækifæri, bara spurning um að koma auga á þau!

14 ummæli:

Gigglito sagði...

Villi minn. Á ég að kalla þig Villa frænda núna? Langaði bara að henda á þig kveðju, og minna á hvað þú ert skemmtilegur penni! Já, það eru margar leiðirnar sem hægt er að fara. Ég hef fulla trú á að þú sért að velja þá réttu, því þú ert jú að fylgja hjartanu þínu og hlustar á þinn innri mann.

Hildigunnur sagði...

Þetta verður fínt, við treystum á það :-) Toj toj...

Nafnlaus sagði...

Hæ, hó!
Jæja, æxlið farið og nú geislar. Og já, satt sagði einhver, þú bara geislar af hamingu. Bara komin kærasta og alles! Frábært. Gangi þér vel í meðferðinni, fínt að hafa einhvern til að styðja sig í gegnum slíkt.

Annars er bara allt gott að frétta hjá mér, búin að liggja í leti í 5 vikna sumarfríi og komin til vinnu aftur. Alltaf gott að komast í rútínuna aftur.
Bestu kveðjur. :-)

Nafnlaus sagði...

Villi við þurfum að fara í kaffi. Sem fyrst. Nenni ekki að skrifa allt sem ég vildi sagt hafa um þessa færslu, betra að það komi bara beint yfir latte í Kringlunni.. hvar annars staðar :D

Nafnlaus sagði...

Villi minn. Það er svo ótal margt sem mig langar að segja núna en læt það bíða þar til við hittumst næst.

Hafðu það samt í huga að þú verður að láta tilfinningarnar flæða og Almættið hefur sent þér frábæran hlustanda. Hina yndislegu og skilningsríku Agnesi. Já þar hefur þú dottið ofan á besta molann í konfektkassanum.

Kv. Olla.

Es. Er ekki að ganga flensa með kvefi og sleni?

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir falleg orð í minn garð Olla mín!
Ætli ég hafi þá ekki bara dottið ofan á besta molann í hinum konfektkassanum:-)
kv.Agnes

Nafnlaus sagði...

Blessaður Villi,

Elfa heiti ég og er ég vínkona Agnesar. Vildi bara segja að ég er mikið sammála Ollu að nú hefur þú dottið á besta molan. Hún er yndisleg og tryggur vinur.
Vildi líka segja, gangi þér vel með geislana. Þetta er ekki það auðveldasta sem fólk gegnur í gegnum. Mundu bara að halda höfði hátt uppi og hugsa jákvætt.
Það verður gaman að fá að hitta þig næst þegar við verðum á klakanum.
Kveðja frá bandaríkjunum

Nafnlaus sagði...

Clausi klessa said...
Elsku Villi! Hún svíkur þig ekki greindin og ekki æðruleysið heldur! Þú ert snillingur. Takk. Hlakka til að sjá þig.
E.C.

Nafnlaus sagði...

Hey! Ég var að koma auga á (og skoða) tengilinn sem þú stílaðir á mig. Takk, Villi. Þið eruð alveg yndislega sæt og nú get ég farið að þreyta Gísla líka.
Bestu óskir um hamingju til ykkar beggja, KRÚTT!!
E.C.

Nafnlaus sagði...

Frábært að koma á ný á bloggið þitt Villi eftir sumarfríið og sjá þig með kærustunni!! vá vá - samgleðst ykkur báðum (mannstu eftir áramótaspjallinu!!!) - og svo þorir þú að segja hvað þú ert að hugsa, sem er frábært fyrir okkur öll (þó svo að ég gæti nú ekki haldið úti svona bloggi) .. toi ..toi ..
kveðjur Jón Helgi

Anna Sigga sagði...

Elsku bestasti Villinn minn!!!
Mikið erum við hin heppin að hafa fengið að kynnast þér! Vangaveltur þínar eru okkur innblástur og æðruleysi þitt er svo sannarlega til eftirbreytni. Ég hef lært margt af kynnum okkar! Og svei mér þá ef þið Agnes eigið hvort annað bara ekki skilið!!! Þið eruð bæði sæt og góð og yndisleg og hver maður er ríkur sem getur talið ykkur meðal vina sinna!
Ég hef þá trú að allt hafi tilgang.
Það er stundum doltið erfitt að koma auga á hann, en, manni er ekki ætlað að skilja allt, það er svo gott!!!

Held áfram að hugsa til þín og ykkar :-)

Nafnlaus sagði...

best regards, nice info » »

Nafnlaus sagði...

Where did you find it? Interesting read »

Nafnlaus sagði...

Eslku Agnes og Villi,

Innilega til hamingju med litla en engilinn. Hann er aedislegur!!!
Astarkvedjur fra Elfu, Lenda og co.