19 mars, 2006

með höfuð fullt af.......

Það eru skrýtnar hugsanir sem fljúga gegnum huga manns, svona fyrstu dagana eftir fréttir. Ég stóð mig að því að fagna því að ég skildi hafa látið nánast þröngva upp á mig líftryggingu fyrir nokkrum árum. Ég verð náttúrulega jafn lifandi eða dauður burtséð frá tryggingunni, lifandi fæ ég ekki neitt, dauður nýt ég einskis, eða hvað?

Ég fór líka að hugsa um það hvort ég væri búinn að gera allt sem ég ætlaði mér. Hugurinn fór af stað og sagði mér hvers ég hefði farið á mis, og rifjaði upp fyrir mér allt sem ég hafði ekki gert. Ég gleymdi því sem ég þó hef gert, og auðvitað er það sem telur.

Til dæmis hef ég alltaf staðið mig vel í skóla, þ.e. ef ég hef nennt að sinna því, hef æft ýmsar íþróttir, og sumar þeirra meir að segja til þónokkurs árangurs (reyndar ekki alveg áfallalaust:), hef lært og unnið við járnsmíði (ok, vantar 4 einingar og sveinspróf), hef farið á sjó, ferðast nokkuð víða, hef unnið í bakaríi (munaði litlu að ég lærði það), tekið stúdentspróf, sungið fyrir Noregskonung (hann dottaði nú reyndar meistaralega ef ég man rétt), hætt að drekka, og sennilega er afrekalistinn endalaus, en mér dettur samt ekkert fleira í hug í bili.

Síðustu 4 ár hef ég látið hjartað ráða, þó það hafi auðvitað kostað ýmsar fórnir, t.d. nætursvefn (og reyndar svefn yfir höfuð á tímabili), mikla launalækkun (amk til að byrja með), bílleysi, mjög óreglulegan vinnutíma, og ýmislegt fleira.

Að leyfa hjartanu að ráða, er ekki endilega rökréttasta ákvörðunin sem maður tekur eða sú auðveldasta. Raunar held ég að það þurfi töluvert mikinn kjark, og í sumum tilvikum jafnvel fífldirfsku til að fara í þá átt.

Fífldirfska er orðið yfir að leggja út í söngnám af jafn mikilli alvöru og ég gerði, miðað við að röddin var nánast ekki. Ég roðna enn og fæ aulahroll þegar ég rifja upp inntökuprófið í Nýja Tónlistarskólann fyrir 5 árum síðan. En ég gerði það og hef þó komist það langt að hafa töluverðar tekjur af söng. Það gera ekki allir, þrátt fyrir langt nám.

Þetta gat ég.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er rétta hugsunin Villi minn. Hugsaðu um allt það sem þú hefur gert en ekki það sem þú átt eftir að gera. Þú ert dugnaðarforkur og alger hetja. Kveðja, Olla.

Nafnlaus sagði...

Flott hjá þér að blogga, ég fylgist með...

"Bjartsýnismaðurinn er hin mennska mynd vorsins."

Nafnlaus sagði...

Hæ Villi Snilli.
Ég bæti þessu bloggi inn í bloggrúntinn minn og fylgist með þér. Hafðu það sem allra best! Ég hugsa til þín.
Kv,
Arnbjörg

Nafnlaus sagði...

Fyrst þú gast allt þetta, ætti þér ekki að verða skotaskuld úr því að hrista þennan hlunk af bakinu á þér.

Und morgen wird die Sonne weider scheinen...

Nafnlaus sagði...

Sæll Villi,
Án efa stendur þú þig með miklum sóma í þessari baráttu. Lykilatriði að vera jákvæður og halda áfram að lifa lífinu eins og hægt er, það reyndist mér best. Þú losar þig við þetta sem fyrst. Baráttukveðjur, Elís.