17 mars, 2006

Nýtt líf!

Já, maður vaknar upp einn daginn og þarf að hefja nýtt líf.

Hvar byrjar maður?

Ég ákvað að fara í frí í skólanum, slá öllum kórum á frest, hætta að syngja í jarðarförum, minnka vinnuna í óperunni eins og mögulegt er og ná í sjónvarpið heim til mömmu og pabba.

Hvað veldur því að maður þarf að byrja nýtt líf?

Tja, í mínu tilfelli var það áfallið við að heyra í lækninum mínum á 32 ára afmælisdaginn, mánudaginn 13. mars. Hér fyrir neðan set ég inn bréf, sem ég skrifaði félögum mínum í kammerkór Langholtskirkju og kór Bústaðakirkju, og lýsir þessum ferli nokkuð vel, allavega eins og ég upplifði aðdragandann:

Kæru vinir, það kom svolítið uppá, sem ég ætla að deila með ykkur, svona í grófum dráttum.

Í ágúst fékk ég lungnabólgu, og var lengi að ná henni úr mér, má jafnvel segja að ég sé rétt að verða laus við hana núna. Ég hóstaði og hóstaði, og sennilega einhvern tímann í október eða nóvember fór ég að finna fyrir einskonar strengjum (eiginlega eins og harðsperrur eða væg tognun) undir eða við vinstra herðablaðið og ég tengdi það bara við það að ég var byrjaður að skúra á fullu í óperunni, hélt ég væri bara að hreyfa vöðva sem hefðu þangað til þá lítið verið notaðir.

Í desember hélt ég mig orðinn góðan af þessari lungnabólgu, en í byrjun janúar sló mér niður aftur með lungnabólgu, sem ég reyndar náði nokkuð fljótt úr mér, en á sama tímapunkti tek ég eftir því að vinstra herðablaðið er farið að standa einkennilega út. Ég hugsaði með mér að þetta væri nú skrýtið, en ég hefði sennilega núna bara slitið vöðva, sem ætti að halda herðablaðinu á sínum stað.

Svo var það í lok febrúar sem ég fer að hafa áhyggjur af þessu herðablaðsdæmi, vegna þess að þetta lagaðist ekkert og eiginlega versnaði, panta mér tíma hjá bæklunarlækni, því ég hélt ég væri með slitinn vöðva. Til hans fór ég á síðasta fimmtudag, 9.mars, hann þreifaði á mér öllum og sagði að sér þætti ekki ólíklegt að þetta væri svokallað fituæxli. Þau eru víst nokkuð algeng, og hættulítil, en til að staðfesta það sendi hann mig í myndatöku á föstudagsmorgun. Þar var tekin tölvusneiðmynd og röntgen.

Á mánudaginn hringdi hann í mig og gat því miður ekki staðfest að um fituæxli væri að ræða, heldur virðist vera mögulega eitthvað annað og verra að. Hann sendi mig í segulómun, sem ég fór í gær, fer í blóðprufu í dag og eitthvað sem kallast beinaskönnun á fimmtudag.

Einnig nefndi doktorinn, að vegna stærðar æxlisins (eða hvað svo sem þetta nú er), sé nokkuð ljóst að það þurfi að fjarlægja það. Hann sagði að mögulega þyrfti hann að senda mig út til Svíþjóðar til þess, þar sem hann vissi ekki um neinn lækni hér á landi sem gæti gert þetta.

Þetta er allt sem ég veit, allavega í bili, og ég vona að þið sýnið mér skilning vegna þessa. Ég ákvað að senda þetta út svona, til að hafa staðreyndir á hreinu, og einnig til þess að þurfa kannski ekki að skýra þetta út fyrir hverjum og einum, ég veit bara ekki hvort ég hef geðheilsu í það. Hins vegar ætlast ég ekki til að fólk þurfi eitthvað að pískra um þetta milli sín, það er alveg óhætt að spyrja fréttaJ

Kær kveðja,

Þannig var það nú......

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mjög fín bréf hjá þér til stjórnarinnar.. er að lesa þetta allt saman núna. k. Jenný